Skip to content

Heilsugæsla

Heilsugæslustöðin á Höfða sér um heilsuvernd í Ártúnsskóla og er það beint framhald af ungbarnavernd og nær upp allan grunnskólann.

Markmið skólaheilsugæslu er að stuðla að því að skólabörn fái að þroskast við bestu skilyrði sem völ er á, andlega, líkamlega og félagslega.  Komi í ljós að eitthvað hamli því að þessum skilyrðum sé fullnægt leitast skólahjúkrunarfræðingur við að aðstoða nemendur, fjölskyldur þeirra og kennara og vera til stuðnings og leiðbeiningar varðandi þá þjónustu sem völ er á. Hann sinnir einnig eftirliti með heilsufari, heilsueflingu og forvörnum.

Ein af forsendum þess að markmið skólaheilsugæslu náist er gott samstarf milli forráðamanna nemenda og starfsfólks heilsugæslunnar.  Nauðsynlegt er að fá upplýsingar ef meiriháttar breytingar verða á högum nemanda eða ef um langvinna sjúkdóma, þroskahamlanir og langtíma lyfjanotkun er að ræða.  Þurfi börn að taka lyf í skólanum hefur hjúkrunarfræðingur milligöngu um það.

Skólahjúkrunarfræðingur verður við í skólanum tvo daga í viku. Starfsfólk heilsugæslu er bundið þagnarskyldu.

Áherslur skólaheilsugæslu eftir árgöngum:
1. bekkur: Slysavarnir, heyrnarmæling, sjónpróf
2. bekkur: Slysavarnir, geðvernd, sjónpróf, gerð tengslakönnun
3. bekkur: Slysavarnir
4. bekkur: Slysavarnir, geðvernd, mæld hæð og þyngd, sjónpróf, viðtal við hjúkrunarfræðing
5. bekkur: Geðvernd
6. bekkur: Kynþroskafræðsla
7. bekkur: Tóbaksvarnir, mæld hæð og þyngd, sjónpróf og litaskyn, geðvernd, viðtal við hjúkrunarfræðing.

Ef barn verður fyrir slysi eða veikist í skólanum, verður því sinnt af hjúkrunarfræðingi, kennara eða starfsmanni skóla í fyrstu.  Haft verður samband við foreldra ef þörf krefur.  Ætlast er til að þeir komi og fari með barnið á slysavarðstofu eða heim eftir því sem við á. Því er mjög mikilvægt að vita hvar hægt er að ná í foreldra hverju sinni.