Fréttir frá skólasafni Ártúnsskóla

Fjölbreytt starf á skólasafni

Allir bekkir grunnskólans koma á skólasafnið einu sinni í viku og vinna fjölbreytt námsverkefni eins og að skrifa bókmenntaritgerð, heimildaritgerð, upplýsingaöflun af neti, vinna tímarit, hlusta á lesnar sögur, vinna lesskilningsverkefni, skrifa endi á sögur sem hafa verið lesnar, ratleikur um safn, öryggi á neti og fleira. Utan þessa verkefna eru ýmis aukaverkefni sem nemendur fá að fara í. Næstu daga koma stuttar fréttir af skólasafninu sem fjalla um starfið sem þar fer fram.

Regnbogaritun er eitt verkefnið, sem nemendur í 2. til 5. bekk vinna. Ritunarverkefnið gengur út á að nemendur draga spýtur í sex mismunandi litum og hefur hver litur sitt hlutverk í rituninni. Gulur stendur fyrir aðalpersónu, appelsínugulur aukapersónu, rauður er atburðurinn í sögunni, grænn er sögusvið úti og blár sögusvið inni og að lokum stendur fjólublár fyrir einhvern aukahlut sem fléttast inn í söguna. Nemendur skrifa svo skemmtilega sögu þar sem ímyndunaraflið fær að njóta sín. Nemendur hafa ákaflega gaman af þessari ritun.