Fréttir frá skólasafni Ártúnsskóla

Fréttir skólasafns

Lestrarátak Ævars vísindamanns

lestraratakÞann 1. janúar hófst nýtt lestrarátak Ævars vísindamanns. Átakið stendur til 1. mars 2017 og er fyrir alla krakka í 1.-7. bekk.

Lestrarátakið virkar þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem nemendur lesa fylla þau út miða sem þau sækja á skólasafnið eða á www.visindamadur.is. Alla upplýsingar um átakið eru einnig þar inni. Skila má miðum í kassa á skólasafninu.

Þetta er sama fyrirkomulag og hefur verið síðustu tvö árin.

Lestrarsprettur - úrslit

Árlegum lestrarspretti skólans lauk um síðustu helgi. Mikið kapp var í nemendum og mikill áhugi við að finna sem fjölbreyttastar bækur á skólasafninu. Niðurstaðan úr lestrarsprettinum var sú að vinningshafar á eldra stigi voru nemendur í 6. LB og á yngra stigi voru það nemendur í 4. GV. Óskum við þeim til hamingju með árangurinn og hvetjum nemendur skólans til að halda áfram að vera duglegir að lesa sér til ánægju og yndisauka.

Lestrarsprettur 2016

lestur 2016Í janúar á hverju ári stendur skólasafn skólans fyrir lestrarátaki. Í ár stendur átakið yfir frá 26. janúar til 5. febrúar en lesa má yfir helgina og skila skráningu mánudaginn 8. febrúar. Mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með lestri barna sinna og hvetji þau til að lesa eins mikið og þau komast yfir.

Að þessu sinni verður lestrarspretturinn tileinkaður fjölbreytileika bóka. Gott væri að ræða við börnin um mismunandi ritverk og fjölbreytileika bóka, skáldsaga, myndasaga, fræðibók, ljóðabók, spennubók, ástarsaga, matreiðslubók, ævintýrabók, draugasaga o.s.fr. Minnt er á, að á flestum heimilum eru til áhugaverðar bækur til lestrar og svo er bent á Ársafn.

Skráningarblaðið lestrarsprettsins má sjá hér

Á skólasafni er skemmtilegt að vera

Á skólasafninu er vikuleg getraun sem nemendur hafa val um að taka þátt í. Á föstudagssamveru er síðan einn heppinn nemandi dreginn út. Á safninu er einnig að finna „Tungubrjót vikunnar" með setningum sem eru erfiðar í framburði.
Bangsasafn skólans heldur til á safninu og allir verðlaunagripir sem skólanum hefur áskotnast í gegnum tíðina.
Í skólastofu hluta safnsins er að finna „Frammistöðumæli" sem mælir hávaða og vinnusemi nemenda, þar eru „Nafnapinnar" með nöfnum allra nemenda skólans svo hægt sé að draga umsjónarmenn og upplesara. Stundum koma góðir gestir í heimsókn. Á skólasafninu fara lestrarsprettir fram og þar er að finna óskilamuna körfu, sem er full þessa dagana.
Fyrsta verkefni allra bekkja að hausti, er að fylla út blað þar sem nemendur skrifa niður þær bækur sem þeir lásu yfir sumarið. Eru nemendur því hvattir til að vera duglegir að lesa bækur í sumar og heimsækja almenningssöfnin.

Valpinnar á Skólasafni

Á skólasafninu í lok kennslustundar fá nemendur að draga „valpinna" með skemmtilegum aukaverkefnum ef tími gefst til. Á valpinnunum eru einhver óvænt skemmtileg verkefni að leysa og vita nemendur ekki hvað þeir draga, heldur á það að koma á óvart. Með þessu fá nemendur tækifæri til að gera eitthvað nýtt og órannsakað, eitthvað sem þeir hefðu jafnvel aldrei valið að gera. Þetta er skemmtileg leið til að víkka sjóndeildarhringinn.