Starfshættir í námsveri

Námsver

Lýsing á starfsháttum í námsveri Ártúnsskóla og starfssviði forstöðumanns námsversins:

Námsver Ártúnsskóla hefur til umráða stóra og bjarta kennslustofu. Þar er vinnuaðstaða við borð fyrir litla hópa, allt upp í tólf nemendur. Auk þess eru fimm sandkassar á borði og tvær nemendatölvur. Möguleiki er á að taka lítinn hóp í krók.

Í námsverinu eru varðveitt sértæk kennslugögn og tæki og skjalasafn þar sem er að finna gögn um nemendur í skólanum sem njóta sértæks stuðnings.

Lögð hefur verið áhersla á að opna námsverið öllum nemendum skólans, en segja má að markhóparnir séu í megindráttum þrír:

1. Nemendur sem þurfa á sértækum námsstuðningi að halda um lengri eða skemmri tíma.
Starfsemi námsversins miðast að stærstum hluta við þennan hóp. Þessir nemendur sækja skipulögð námskeið í námsverið og fá sértækan stuðning einkum í íslensku og stærðfræði. Unnið er á margvíslegan hátt með málskilning, lestur, ritun, tjáningu og grunnaðgerðir í stærðfræði. Námið er einstaklingsmiðað þó oft sé unnið í litlum hópum. Skólaárið tekur yfir þrjár annir og miðast lengd námskeiða að jafnaði við eina önn í einu.

Á yngsta stigi er lögð áhersla á að fyrirbyggja námsvanda, m.a. með markvissri mál- og hreyfiþjálfun. Unnið er að því að finna og vinna með þau börn sem eiga við lestrarerfiðleika og aðra námsörðugleika að etja. Í eldri bekkjum skólans er m.a. unnið með námstækni og að finna ákjósanlegustu leiðir í námi fyrir nemendur í sértækum námsvanda. Áhersla er lögð á notkun hjálpargagna og tækja, s.s. hljóðbóka og tölva til þess að auðvelda nemandanum að ná námsmarkmiðum sínum. Leitast er við að byggja sérúrræði á niðurstöðum greininga og greinandi kannana.

2. Nemendur sem stunda sandleik í tengslum við mismunandi verkefni sem á dagskrá eru í bekkjunum.
Nemendur úr heilu árgöngunum stunda sandleik í tengslum við verkefni sem eru í bekkjardeildunum. Sandleik og sögugerð má einnig skipuleggja sem hluta af svæða- eða stöðvavinnu. Sem dæmi má taka að unnið hefur verið með efni á borð við drauma, ævintýraheim og sjálfslýsingu.

3. Nemendahópar sem koma í tengslum við ýmis samstarfsverkefni.
Forstöðumaður námsvers tekur reglulega þátt í ýmsum samstarfsverkefnum sem í gangi eru í skólanum og tekur þá á móti blandaðri og stærri nemendahópum en þeim sem annars sækja námsverið. Hér má nefna verkefni í tengslum við lífsleikniþemu skólans eða samstarfsverkefni á milli árganga.

Sérstök áhugasvið núverandi forstöðumanns námsvers eru ævintýri úr munnlegri geymd, sögugerð barna og sandleikur. Hann hefur því, eftir því sem við verður komið, lagt sig eftir því að þróa þessa efnisþætti og flétta þá inn í námskeið sem hann ber ábyrgð á. Enn fremur hefur hann í samvinnu við umsjónarkennara og annað starfsfólk leitast við að tengja þessa efnisþætti við það starf sem fram fer úti í bekkjardeildunum.

Samskipti foreldra og námsvers
Foreldrum er tilkynnt þegar börn þeirra hefja námskeið í námsveri.
Litið er á umsjónarkennara sem aðaltengilið skólans við foreldra.
Forstöðumaður námsvers hefur frumkvæði að samskiptum við foreldra barna sem sækja námskeið í námsveri þegar hann telur þörf á.
Foreldrum er velkomið að hafa samband við forstöðumann námsvers þegar þeim best hentar.

Verklagsreglur um hverjir skuli njóta stuðnings og hvernig staðið er að skipulagi þess stuðnings
Val á nemendum sem sækja námskeið í námsveri fer fram í samráði við umsjónarkennara. Til hægðarauka sækja umsjónarkennarar um sértækan stuðning við einstaka nemendur sína á þar til gerðum umsóknareyðublöðum. Skipulag haustnámskeiða er unnið á grundvelli þessara umsókna. Við hver annarlok er metið hvort viðkomandi nemandi þurfi á áframhaldandi stuðningi að halda. Við val á nemendum er höfð í huga fyrirliggjandi úthlutun Menntasviðs Reykjavíkur til sérkennslu og stuðnings við skólann. Einnig er tekið tillit til fjölda nemenda í bekk og hlutfall stuðningsaðila í viðkomandi bekk.

Gerð einstaklingsáætlana. Hér er um að ræða markmiðs- og framkvæmdaráætlun í samráði við umsjónarkennara.

Kennsla einstaklinga og hópa sem sækja námskeið í námsveri eða fá sambærilegan stuðning úti í bekkjardeildunum.

Lokaskýrsla þar sem fram kemur markmiðslýsing, framkvæmd námskeiða og mat á námsárangri. Slík skýrsla er varðveitt í þar til gerðri möppu sem fylgir hverjum nemenda sem sækir námskeið á vegum námsversins.

Starfssvið forstöðumanns námsversins
Starfssviðið spannar skipulags- og mótunarstarf, ráðgjöf og kennslu. Honum er ætlað að fylgjast vel með umræðu og nýjungum á sviði kennslumála sem eflt gæti þá starfsemi sem fram fer í námsverinu eða á vegum þess. Undir starf hans falla eftirfarandi þættir:
- Skipulagning á starfi í námsverinu.
- Gerð námsáætlana fyrir nemendur sem sækja námskeið í námsverinu. Í slíkri áætlun kemur fram markmiðs- og framkvæmdaáætlun fyrir viðkomandi nemanda.
- Kennsla einstaklinga og hópa í námsverinu eða úti í bekkjardeildunum.
- Lokaskýrsla um markmið og framkvæmd námskeiða og mat á námsárangri hvers nemanda fyrir sig.
- Eftirlit með að nemendur sem þurfa á sértækum stuðningi að halda njóti þeirra hjálpargagna sem völ er á í skólanum, t.d. hljóðsnælda.
- Ráðgjöf við val á heimalestrarbókum fyrir nemendur sem sækja námskeið í lestri í námsveri í samvinnu við skólasafnskennara og umsjónarkennara.
- Yfirsýn yfir starf stuðningsfulltrúa og aðra stuðningskennslu sem fram fer í skólanum.
- Umsjón með að hópprófanir og skimanir fari fram í bekkjadeildunum, t.d. Tove Krogh, Boehm, Læsi og LH. Fyrirlögn og úrvinnsla er yfirleitt á hendi forstöðumanns námsvers.
- Umsjón og eftirfylgd með að nauðsynlegar greiningar og prófanir á einstaka nemendum fari fram. Hér getur t.d. verið um að ræða lestrargreiningar og sálfræðipróf.
- Seta í nemendaverndarráði.
- Fundir með foreldrum og fagaðilum innan skólans og utan vegna nemenda sem þurfa á verulegum sértækum stuðningi að halda. Hér getur verið um að ræða t.d. inntökufundi og reglulega skilafundi.
- Umsjón með upplýsingafundum um börn sem þurfa á sértækum stuðningi að halda með sérgreinakennurum, námsráðgjafa, skólasafnskennara, skólaliðum og þeim aðilum sem stuðninginn veita, t.d. stuðningskennurum, stuðningsfulltrúum, þroskaþjálfum. Miðað er við að slíkir fundir fari að jafnaði fram einu sinni á ári.
- Formlegir og óformlegir fundir með hinum ýmsu aðilum sem koma að sértækum stuðningi í skólanum. Hér má nefna ráðgjöf um efni, aðferðir eða aðstoð við áætlanir og skýrslur.
- Umsjón með gögnum um nemendur í skólanum sem njóta sértæks stuðnings hvort heldur er í námsveri, inni í bekk eða í íþróttum. Hér getur verið um að ræða ýmis greiningargögn unnin af utanaðkomandi og/eða innanhúss fagaðilum, og einnig matsskýrslur þeirra fagaðila innan skólans sem koma að sértækri námsaðstoð. Gögnin eru varðveitt í skjalasafni námsversins.
- Umsjón með banka sértækra námsgagna og tækja sem allir stuðningsaðilar hafa aðgang að.
- Ársskýrsla um starfsemi námsversins.