Sandleikur

Sandleikur

Sandleikur (sandplay) er stundaður sem meðferðar- og greiningartæki í sálgæslu fyrir börn og fullorðna í ýmsum löndum. Sjálf hef ég stuðst við þessa aðferð til að efla sjálfstraust nemenda minna og virkja frjóa hugsun þeirra, en ímyndunaraflið er trúlega öflugasta tæki barnsins í námi. Auk þess að vera afbragðsgóð aðferð til að örva mál og skapandi tjáningu hef ég trú á að sandleikur gefi barninu færi á að tákngera sinn innri heim og vinna á gefandi hátt með þau viðfangsefni sem þau verða að glíma við til að þróa sjálfsmyndina og taka út þroska.

Nemendur á öllum aldri fá tækifæri til að stunda sandleik (sandplay) í námsverinu í Ártúnsskóla. Í leiknum er notaður kassi (50x72x7 cm) sem stendur á borði í þægilegri hæð fyrir nemandann. Kassinn er blámálaður að innan og sandurinn ljós. Safn smámuna er raðað í hillur í námunda við kassann. Munirnir eru fjölbreytilegir, t.d. náttúrugripir (steinar, skeljar, trjábútar), dýr af ýmsu tagi, fólk, kynlegar verur, húsakynni, farartæki o.fl. Kassinn er af þeirri stærð að sá sem er að vinna eða leika sér í casino pa natet kassanum hefur yfirlit yfir hann allan í einu. Sandurinn og blár botninn bjóða upp á möguleikann til að grafa niður í djúpin og byggja upp í hæðir. Þrívíddarmunirnir gera það að verkum að hægt er að setja upp flóknar senur án þess að búa yfir sérstakri myndlistarkunnáttu. Jafnvel ungt barn getur ráðið við að kalla fram margbrotnar senur.

Leikurinnn er frjáls að því leyti að nemandinn velur þá hluti úr hlutasafninu sem hann vill nota í kassanum og mótar sandinn að vild. Ég læt barnið sem mest í friði meðan á leiknum stendur en er til taks ef barnið kýs að ég taki þátt í leiknum með því. Þegar myndgerð er lokið hvet ég nemandann til að semja og segja mér sögu út frá myndinni. Ég skrifa söguna beint upp eftir nemandanum og tek ljósmynd af kassanum. Mynd og saga límd inn í möppu. Söguna má síðan nota á ýmsa vegu í tengslum við lestrarkennslu, ritun og til að styrkja frekari málvitund.

Sandleikurinn hefur reynst afar vinsæll og hef ég eftir megni reynt að gefa öðrum en nemendum mínum tækifæri á að leika sér í sandinum og semja sögur.

In English