Ævintýri og þjóðsögur

Ævintýri og þjóðsögur

Í námsveri skólans hefur verið lögð áhersla á að fást við ævintýri. Gildi ævintýra er margþætt. Leitun er að kjarnbetri og safaríkari texta á íslensku til að vinna úr með börnum. Með því að viðhalda sagnahefðinni nærum við og styrkjum streng sem tengir okkur við forna þjóðlega hefð um leið og við fáum börnum í hendur leiðarhnoða inn í framtíðina. Í greinaskrifum (Skirnir, 1999; Uppeldi og menntun, 1998) hef ég varpað fram þeirri tilgátu að sígild ævintýri og ævintýri sem börn semja sjálf hvetji til tjáskipta á milli mismunandi gerða hugsunar sem feli í sér möguleika til vaxtar og breytinga á sviði skilnings og tilfinninga.

Auk þess að stuðla að vinnu með ævintýri í námsveri hef ég tekið þátt í fjölbreyttu starfi úti í bekkjunum þar sem fengist hefur verið við ævintýri. Börnunum er sögð saga, þau lesa sjálf ævintýri, vinna myndrænt eða leikrænt með sígild ævintýri og semja sjálf ævintýri, ýmist munnlega, skriflega eða myndrænt. Ævintýragerð barnanna sjálfra fylgir venjulega í kjölfar vinnu með sígild ævintýri. Til undirbúnings ævintýragerðinni tek ég enn fremur tíma í að fjalla sérstaklega um einkenni ævintýra, virkja börnin í þeirri umræðu og fæ þau til að sækja í eigin reynslu af ævintýrum. Þegar ég legg fyrir börnin að semja ævintýri nota ég jafnframt frekari kveikju en undangengna ævintýravinnu og umfjöllun. Stundum nota ég tónlist en oftast gríp ég til munasafnsins míns. Þannig hefur verið unnið með Búkollu í 3. bekk, Gullintönnu í 4. bekk og Söguna af Kisu kóngsdóttur í 5. bekk ásamt ævintýragerð barnanna sjálfra.