Skip to content

Lögð hefur verið áhersla á að opna námsver Ártúnsskóla öllum nemendum skólans auk þess sem kennarar þess taka þátt í starfi inni í bekkjarstofum, í hópastarfi, fara í námsferðir o.s.frv.

Segja má að markhóparnir í námsveri séu í megindráttum þrír:

  1. Nemendur sem þurfa á sértækum námsstuðningi að halda um lengri eða skemmri tíma. Starfsemi námsversins miðast að stærstum hluta við þennan hóp. Þessir nemendur sækja skipulögð námskeið í námsverið og fá sértækan stuðning einkum í íslensku og stærðfræði. Unnið er á margvíslegan hátt með málskilning, lestur, ritun, tjáningu og grunnaðgerðir í stærðfræði og haft að leiðarljósi að höfða til sköpunarkrafts nemenda við úrvinnslu viðfangsefna. Námið er einstaklingsmiðað þó oft sé unnið í litlum hópum sem gjarnan eru getublandaðir. Skólaárið tekur yfir þrjár annir og miðast lengd námskeiða að jafnaði við eina önn í einu.
    Á yngsta stigi er lögð áhersla á að fyrirbyggja námsvanda, m.a. með markvissri mál- og hreyfiþjálfun. Með snemmtækri íhlutun er unnið er að því að finna og vinna með þau börn sem eiga við lestrar- og aðra námsörðugleika að etja. Í eldri bekkjum skólans er m.a. unnið með námstækni og að finna ákjósanlegustu leiðir í námi fyrir nemendur með sértækan námsvanda. Áhersla er lögð á notkun hjálpargagna og tækja, s.s. hljóðbóka og tölva til þess að auðvelda nemandanum að ná námsmarkmiðum sínum. Leitast er við að byggja sérúrræði á niðurstöðum greininga og greinandi kannana.
    Frá árinu 2002 hefur verið lögð áhersla á að bjóða þessum nemendum upp á að stunda reglulega sandleik og sögugerð, en niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið í námsveri Ártúnsskóla  benda til jákvæðra áhrifa þessara aðferða á þroska og líðan barna.

2. Nemendur sem stunda sandleik í tengslum við mismunandi verkefni sem á dagskrá eru í bekkjunum.
Sandleikur og sögugerð eru komið inn í skipulag í völdum verkefnum í svæða- eða stöðvavinnu. Sem dæmi má taka að unnið hefur verið með efni á borð við fiðrildi, himingeiminn, risaeðlur, drauma, ævintýraheim og sjálfslýsingu. Hér vinna sérkennslunemendur og aðrir nemendur hlið við hlið og er þetta fyrirkomulag því einnig liður í þeirri viðleitni að rjúfa einangrun námsversins og eyða fordómum í garð þeirra sem þangað þurfa að leita reglulega.

3. Nemendahópar sem koma í tengslum við ýmis samstarfsverkefni.
Kennarar í námsveri taka reglulega þátt í ýmsum samstarfsverkefnum sem í gangi eru í skólanum og taka þá á móti blandaðri og stundum stærri nemendahópum en þeim sem annars sækja námsverið. Hér má nefna verkefni í tengslum við lífsleikniþemu skólans eða samstarfsverkefni á milli árganga.
Höfuðáhersla er lögð á að nemendur okkar fái kennslu/stuðning við bekkjaraðstæður með það að markmiði að gera nemandann eins  sjálfstæðan og öruggan í vinnu sinni og hægt er en einnig stuðning og þjálfun utan bekkjar eftir þörfum. Áhersla sérkennslu fer alltaf eftir þörfum nemandans hverju sinni.

Hlutverk og ábyrgð umsjónarmanns sérkennslu
Skólastjórnendur, forstöðumaður námsvers og þroskaþjálfi móta sameiginlega heildarskipulag stuðnings og sérkennslu. Forstöðumaður námsvers hefur yfirumsjón með framkvæmd stuðnings og sérkennslu í skólanum. Forstöðumaður námsvers skipuleggur og framkvæmir þær skimanir sem hann hefur réttindi til að leggja fyrir. Aðrar greiningar eru framkvæmdar af sérfræðingum utan skólans. Forstöðumaður námsvers ber ábyrgð á upplýsingagjöf og samráði við foreldra í samstarfi við umsjónarkennara. Forstöðumaður námsvers situr í nemendaverndarráði og lausnarteymi, auk þess að sitja teymisfundi.  Forstöðumaður námsvers ásamt þroskaþjálfa veitir umsjónakennurum, kennurum og stuðningsfulltrúum ráðgjöf og handleiðslu.