Heilsueflandi skóli – þemað orka - víxlböð

Í tengslum við þemað orku var nemendum boðið upp á að prófa svo kölluð víxlböð í íþróttatímum síðustu viku skólaársins. Víxlböð eru þekkt frá fornu fari sem heilsueflandi fótaböð og ganga út á það að farið er til skiptis í heitt og kalt vatn. Kalda vatnið dregur saman æðarnar í húðinni og minnkar blóðflæði á meðan heita vatnið víkkar æðarnar og eykur blóðflæðið. Þetta er talið auka blóðflæði og efla hjarta- og æðakerfi. Víxlböðin eru m.a. talin góð gegn verkjum í fótum, fótapirringi og þreytu í fótum. Nemendur byrjuðu íþróttatímann á því að skokka og fóru því næst í víxlböðin. Mörgum fannst mjög magnað og gaman að prófa víxlböðin og flestir voru á því að þeim liði afar vel í fótunum að þeim loknum.