Heilsueflandi skóli - lífsleikni

Ártúnsskóli - heilsueflandi skóli

Ártúnsskóli hefur verið þátttakandi í verkefni sem ber heitið Heilsueflandi grunnskóli frá skólaárinu 2010 - 2011. Landlæknisembættið stýrir verkefninu í samvinnu við fleiri aðila. Eitt helsta markmið heilsueflandi skóla er að vinna markvisst að því að efla og stuðla að velferð og góðri heilsu nemenda og starfsfólks.
Í heilsueflandi skóla er sérstök áhersla lögð á eftirfarandi átta þætti skólastarfsins: Nemendur, mataræði- tannheilsa, heimili, geðrækt, nærsamfélag, hreyfing- öryggi, lífsstíll og starfsfólk.
Markviss vinna við að setja heildræna stefnu fyrir heilsueflandi skólastarf í Ártúnsskóla hófst árið 2010 og er í sífelldri þróun. Í þeirri stefnumótun er byggt ofan á þann grunn sem þegar var til staðar í Ártúnsskóla en markmið, stefna og starf skólans fellur vel að markmiðum og áherslum heilsueflandi skóla.
Í skólanum hefur til langs tíma verið unnið ötullega með lífsleikni. Þróunarverkefni í lífsleikni undir heitinu "Lífsleikni - leið til lausnar" var unnið í skólanum veturinn 2001 -2002. Í framhaldi af því skapaðist sú hefð að vinna markvisst með ákveðin lífsleikniþemu á ári hverju. Sú hefð hefur haldið sér og tengist nú beint markmiðum og verkefnum Heilsueflandi skóla.

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Landslæknisembættisins.