Fréttir - umhverfismennt

Æðislegur dagur í Gufunesbæ

Við áttum æðislegan dag í Gufunesbæ í dag þar sem allir nemendur grunnskólans fóru í gegnum níu stöðva hringekju. Verkefni stöðvanna voru fjölbreytt og krefjandi og reyndu á samkennd og samvinnu nemenda. Þar var t.d. tálgað og smíðað, hlustað á jólasögu í tjaldi, farið í ratleik, frisbí folf prófað, leikið í kastala og á Álfahól og fleira. Veðrið var dásamlegt, stillt, bjart og kalt og nemendur nutu þess að vera úti við leik þar sem þeir voru mjög vel búnir til útiveru, sýndu þrautseigju og seiglu í allri vinnu og hófsemi var í hávegum höfð. Dagurinn var einstaklega ánægjulegur og vel skipulagður af umhverfisnefnd Ártúnsskóla og starfsfólki Gufunesbæjar. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Það voru glöð, rjóð og sælleg börn sem komu til baka upp í skóla í lok skóladags. 

Fleiri myndir má sjá hér. 

Útidagur í Gufunesbæ

Á fimmtudaginn 14. desember fer skólastarf okkar fram í Gufunesbæ. Starfsmenn útilífsmiðstöðvar Gufunesbæjar ásamt starfshópi á vegum Ártúnsskóla og umhverfisnefndar lögðust á eitt við að undirbúa útinámshringekju í Gufunesbæ. Skóli hefst skv. stundaskrá eins og venjulega kl. 8:25 og lýkur 13:25/14:00 eftir því sem við á í hverjum árgangi. Við verðum úti allan morguninn frá kl. 9:15 - 13:15 og förum í Gufunesbæ með rútu.

Mjög mikilvægt er að nemendur séu klæddir til langrar kaldrar útiveru. Ullarnærföt og hlýr útivistarfatnaður er nauðsynlegur og ekki má gleyma góðri húfu og vetrarvettlingum. Leiðbeiningar um klæðnað má nálgast hér https://www.fi.is/is/ferdafelag-barnanna/born-og-bunadur

Nemendur taka með sér morgunnesti í ferðina og gott að hafa það í litlum íþróttabakpoka. Mikilvægt er að allir séu með hollt og gott nesti og að þessu sinni mega nemendur koma með heitt kakó í brúsa og piparkökur ef þeir vilja. Hádegismatur verður snæddur í Gufunesbæ áður en við höldum heim.

Við vonumst til að dagurinn verði sem skemmtilegastur og allir fái að njóta sín.

Sing for the climate

ecoroad hringur.jpgNemendur í skólunum fjórum sem vinna saman í Erasmus+ verkefninu EcoRoad mega vera stoltir af myndbandinu sem gefið var út í tilefni af Norræna loftslagsdeginum, en þar syngja þeir um nauðsyn þess að vernda jörðina og auðlindir hennar. Söngur og myndir voru tekin upp í hverju landi fyrir sig og síðan sett saman í eitt myndband. EcoRoad verkefnið snýst um það að efla menntun til sjálfbærni með því að þróa góðan skólabrag og er unnið af nemendum og starfsfólki skólanna, en einnig er unnið með íbúum, stofnunum og fyrirtækjum í nærsamfélaginu. Skólarnir eru: Ártúnsskóli, Hönttamäen koulu í Oulu í Finnlandi, De Wereldreiziger í Antwerpen í Belgíu og St. Georges school í Clun í Englandi. 

Myndbandið má sjá hér.

 

Sjáumst vel í myrkrinu

enudrskinsmerki 2og6Við í 6. KHL og 2. LH erum vinabekkir og viljum hvetja alla til að nota endurskinsmerki. Bekkirnir okkar komu saman í ,,Nýtniviku“ Reykjavíkurborgar og áttum notalega samverustund við vinnu og  lestur. Við festum saman endurskinsmerkjakalla og sýnum ykkur þá hér til að minna alla á mikilvægi þess að nota endurskinsmerki.

Það er flott að nota endurskinsmerki

Kveðja frá 6. KHL og 2. LH
og umhverfisnefnd