Fréttir - umhverfismennt

Minna plast

Margt áhugavert hefur verið gert í umhverfismálum nú á haustdögum. Stjórn FUÁ gekk í alla bekki og hvatti alla til að taka virkan þátt í ,,Plastlausum september“ með því að hvetja til umræðu um plastmengun og að nota eingöngu fjölnota nestibox. Árgangar skólans eru að vinna skemmtileg verkefni sem tengjast plasti og umhverfisfræðslu sem gaman verður að fylgjast með. Nemendur og starfsfólk Ártúnsskóla sameinuðust í árvekniverkefni og hreinsuðu rusl í hverfinu. Ruslið var flokkað í plast og almennt rusl og því safnað saman í fötur á skólaóðinni. Sjá má á myndunum að ruslið er ekki eins mikið og vænta mætti. Eftir tiltektina var safnast saman hjá afrakstrinum (ruslahrúgunni) og sungið saman ,,Sing for the climate, do it now“. Verkefnið var unnið í tengslum við Erasmus verkefni sem skólinn er þátttakandi í ,,Ecoroad“ í samstarfi við skóla (Í Englandi, Belgíu og Finnlandi). Afraksturinn fáið þið svo að sjá í myndbandi þann 11.11. 2017.

Umhverfisdagar í Ártúnsskóla

Allir dagar eru umhverfisdagar í Ártúnsskóla og í septembermánuði fara allir hópar Ártúnsskóla í grenndarskóg að hlúa að og njóta birkitrjánna í afmælislundi Ártúnsskóla. Nemendur tengja hófsemi í náttúrunni við listræna sköpun í tengslum við birkitrén. Geta má þess að við vorum svo heppin að tveir starfsmenn frá Útmörk hafa verið að saga og grisja tré meðfram göngustíg í grenndarskógi. Svo nú höfum við eldivið fyrir útieldun og trékubba til listsköpunar fyrir skólann.

6. BIG – Varðliðar umhverfisins

Gaman er að segja frá því að nemendur í 6. BIG hlutu viðurkenninguna "Varðliðar umhverfisins" 2017 fyrir umhverfisverkefnið sitt ,,Minna plast". Nemendur Ártúnsskóla vildu sporna við plastnotkun í nærumhvefi sínu, settu jákvæð skilaboð á innkaupakörfur og gerðu m.a. könnun á meðal viðskiptavina verslunarinnar Krónunnar Bíldshöfða og hvöttu þá til að nota margnota poka í stað plastpoka.  Verkefni var unnið í samráði við verslunina Krónuna.

Umhverfis- og auðlindaráðherra  Björt Ólafsdóttir afhenti nemendum viðurkenninguna við hátíðlega athöfn síðastliðinn föstudag

Dagur umhverfisins 25. apríl - virðing

,,Allir dagar í Ártúnsskóla eru umhverfisdagar“

umhverfisdagur mai17Árið 1999 ákvað Ríkisstjórn Íslands að tileinka einn dag ár hvert, umhverfinu og varð 25. apríl fyrir valinu en þann dag fæddist Sveinn Pálsson norður í Skagafirði árið 1762. Hann stundaði nám í náttúrufræðum við Kaupmannahafnarháskólann árið 1791 fyrstur Íslendinga. Hann var fyrstur til þess að stunda skipulegar náttúrufræðirannsóknir hér á landi. 
Allir dagar í Ártúnsskóla eru umhverfisdagar, í tilefni umhverfisdags 25. apríl eða í sömu viku þá komum við saman, gerðum okkur glaðan dag og unnum margvísleg verkefni.
Í tilefni af 30 ára afmæli skólans fengu allir árgangar og deildir skólans birkiplöntu að gjöf sem þeir eru að hlúa að, rannsaka, mynda og búa til sköpunarverk út frá. Þessar plöntur munu svo prýða afmælisreit Ártúnsskóla í grenndarskógi. Nemendur tóku þátt í verkefninu,, Grænir fingur“ sáðu fræjum í mold og moltu sem spennandi verður að fylgjast með vaxa. Fóru út að fegra nánasta umhverfi skólans auk þess að hreinsa til í Grenndarskógi Ártúnsskóla og saga efnivið og grisja.