Skólabúðavika 7. bekkjar

Vikuna 2.- 6. október fóru nemendur í 7.bekk í Skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Veðrið var dásamlegt og dvölin sömuleiðis. Nemendur nutu þess að fá tilbreytingu frá hefðbundnu skólastarfi og kynnast tilvonandi skólafélögum í Árbæjar- og Selásskóla. Hópurinn virtist ná vel saman en margir þekkjast úr tómstunda- og íþróttastarfi hér í hverfinu og því varð stemningin fljótt góð í hópnum. Nemendur fengu kennslu í sögu og náttúrufræði, fóru í íþróttatíma og fengu afnot af sundlauginni í eftirmiðdaginn og náttúrulaug sem er í fjöruborðinu. Á einni stöð var unnið með hópeflisleiki og á móti þeim var tekið á Byggðasafninu og nemendur fræddir um hákarlaveiðar og fleira og fengu að smakka hákarl. Það var því margt brallað og ógleymanlegum minningum safnað. Við þökkum starfsfólkinu í skólabúðunum kærlega fyrir frábærar móttökur og yndislegan tíma sem og ferðafélögunum í Selás- og Árbæjarskóla. Annars segja myndirnar meira en þúsund orð. 

Bleikur dagur

Nemendafélag Ártúnsskóla FUÁ stendur fyrir BLEIKUM DEGI föstudaginn 13. október. Nemendafélagið hvetur alla starfsmenn og nemendur skólans að koma með eitthvað bleikt í farteskinu eða klæðast einhverju bleiku. bleikaslaufan

Samvera á sal hjá 5. LÓ

Nemendur í 5. LÓ tóku fullan þátt í plastlausum september og þema samverunnar hjá þeim var það viðfangsefni. Nemendur fengu spurninguna "Hvað getum við gert til þess að minnka plast í umhverfinu?" og áttu að svara henni á skapandi hátt. Það sem varð fyrir valinu voru hreyfimynd, myndband, spurningaþættir, teiknimyndasögur og leikrit. Nemendur voru greinilega fróðir um plast og höfðu mikið lært í mánuðinum um plast og mengun þess í náttúrunni. Samveran heppnaðist stórkostlega og eru nemendur og kennarar ánægðir með árangurinn. 

Fleiri greinar...