Skip to content

Heimsræktun – verkefnalok

Í ágúst síðastliðnum lauk Erasmus+ verkefninu Heimsræktun (School Permaculture Garden) en það hafði þá staðið í þrjú ár. Upphaflega var það hugsað sem tveggja ára verkefni, en var framlengt vegna Covid sem lengi vel kom í veg fyrir að við gætum heimsótt samstarfsskólana. Það tókst þó í vor og ferð til Skopje heppnaðist vel. Í júlí komu svo gestir til okkar þegar allir voru í sumarfríi, það fannst ekki tími til að koma fyrr. Í gestahópnum voru sjö börn frá Möltu og nokkrar stúlkur úr Ártúnsskóla komu og sýndu þeim skólann, Elliðaárdalinn og Árbæjarsafn. Maltnesku krakkarnir fengu líka að taka þátt í starfinu í Skólaseli og höfðu gaman af.

Þeir fullorðnu skoðuðu vistvænan heimilisgarð og Hveragarðinn og kynntu sér hvernig ullarband er litað með villtum jurtum, en einnig voru haldnir síðustu formlegu fundir stýrihópsins. Stjórnendur verkefnisins eru mjög ánægðir með hvernig til tókst og það er gaman að segja frá því að landsskrifstofa Erasmus á Möltu veitti því verðlaun sem kallast eTwinning National Awards, besta verkefnið 2022, fyrir þann þátt sem fram fór á netinu.

En þótt Erasmus+ verkefninu sé formlega lokið höldum við áfram að rækta matjurtir í Ártúnsskóla, bæði inni og úti.

Fleiri myndir frá heimsókninni má sjá í myndaalbúmi heimasíðunnar.