Skip to content

Heimsræktun – ferð til Makedóníu

Í byrjun maí fóru sex nemendur úr 7. bekk Ártúnsskóla og þrír starfsmenn skólans í námsferð til Skopje í Norður-Makedóníu. Ferðin var hluti af Erasmus+ þróunarverkefninu Heimsræktun, um vistvæna ræktun í skólum og heilbrigði, sem hófst haustið 2019 og lýkur nú í sumar. Þetta var langt og krefjandi ferðalag, en með góðri samstöðu stóðst hópurinn allar áskoranir með prýði. Má til dæmis nefna að heildar ferðatíminn frá Ártúnsskóla og þar til allir voru komnir inn á herbergi í Skopje var um það bil 21 klukkutími, m.a. vegna mikillar seinkunar á flugi.

Í Skopje kynntu krakkarnir Ísland og Ártúnsskóla, kenndu framburð á nokkrum vel völdum íslenskum orðum og svöruðu spurningum heimamanna, alls þrjár kynningar og allt á ensku. Nemendahópar frá Íslandi, Króatíu og Norður-Makedóníu skemmtu sér við að spjalla saman, hlusta á fyrirlestra um gróður, ræktun og skordýr, skoða uppstoppuð dýr, gamalt virki, stóran helli og fleiri fallega staði.

Heim komu allir reynslunni ríkari og höfðu frá mörgu að segja. Það er alltaf þroskandi að kynnast daglegu lífi fólks í öðrum löndum og takast á við ný verkefni, það var því mjög ánægjulegt að geta loksins farið þessa ferð sem upphaflega hafði verið áætluð 2020. En eins og einn fyrirlesarinn, verðlaunahafi fyrir námsárangur, benti okkur á þá er mikilvægt að læra – ekki fyrir einkunnirnar, heldur vegna þess að það sem þú kannt og þá hæfni sem þú ræktar með þér getur enginn tekið frá þér.

Heimasíða verkefnisins: https://twinspace.etwinning.net/91903/home

Fleiri myndir frá ferðinni eru í myndaalbúmi síðunnar