Skip to content

Gönguferð í Búrfellsgjá

Það var einstaklega skemmtilegur dagur í grunnskóladeild Ártúnsskóla í gær.  Í tilefni af árlegum íþróttadegi skólans og upphafi  árverkni verkefnisins „göngum í skólann“ var haldið í gönguferð. Nemendur og starfsfólk grunnskólans fóru í rútu upp í Heiðmörk og gengu að Búrfellsgjá. Allir nemendur stóðu sig vel í göngunni og það er ánægjulegt að segja frá því að þau eldri voru hjálpsöm við hin yngri og mörg buðu fram hönd til að leiða.

Næsta mánuðinn á meðan að „göngum í skólann“ stendur yfir verður lögð áhersla á aukna hreyfingu og að allir nemendur tileinki sér að fara öruggustu leiðina í skólann.

Markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta eða hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Myndir frá gönguferðinni má sjá í myndaalbúmi heimasíðunnar.