Skip to content

EcoRoad – Eflum menntun til sjálfbærni með því að þróa skólabraginn

Erasmus+ verkefnið „ECORoad – a Roadmap To An ESD School“ er samstarfsverkefni Ártúnsskóla, Miðstöðvar útivistar og útináms og skóla frá Finnlandi, Englandi og Belgíu. Verkefnið hófst árið 2016 og var tveggja ára verkefni sem lauk með útgáfu leiðbeinandi bæklings um leiðir fyrir grunnskóla að menntun til sjálfbærni í gegnum þróun á skólabrag.

Niðurstöður rannsóknar (Saloranta, 2017) sýna fram á að menntun til sjálfbærni náist ekki nægilega vel með beinni fræðslu í afmörkuðum viðfangsefnum er snerta sjálfbærni heldur náist meiri árangur ef menntun til sjálfbærni er samofin skólabrag og nærumhverfinu. Í verkefninu var lögð áhersla á fjóra þætti sem hafa áhrif á hvernig skólabragur myndast. Þeir eru starfsþróun starfsmanna (Professional Orientation), stjórnsýsla skólans (Organisational Structure), viðfangsefni og áherslur í verkefnavali fyrir nemendur (Teaching and learning) og persónuleg upplifun nemenda í raunverkefnum (Student Centered Focus). Allir þessir þættir hafa áhrif hver á annan og á það hvernig skólabragurinn þróast, sem hefur áhrif á árangur nemenda. Til að meta verkefnið voru spurningalistar lagði fyrir nemendur, kennara og foreldra í upphafi og svo aftur í lok verkefnisins. Niðurstöðurnar gáfu áhugaverða innsýn í marga þætti í skólastarfinu og eins hvort þau verkefni sem framkvæmd voru á milli kannana breyttu einhverju og þá hvernig. Hægt er að kynna sér spurningarlistana í bæklingnum og eins sýnishorn af þeim verkefnum sem skólarnir framkvæmdu í tengslum við þetta verkefni. Bæklinginn má nálgast á vefsíðu verkefnisins: https://ecoroad.weebly.com/.